Óttast að ebólufaraldur breiðist út til fleiri landa

Ung stúlka stendur í miðri kirkju í Mangina í Norður-Kivu …
Ung stúlka stendur í miðri kirkju í Mangina í Norður-Kivu þar sem ebólufaraldurinn hefur verið hvað skæðastur. AFP

Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, munu eiga fund í vikunni til að meta hvort að ebólufaraldurinn í austurhluta Austur-Kongó sé orðinn að neyðarástandi á heimsvísu.

Framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus, hefur sett saman neyðarnefnd vegna faraldursins í Norður-Kivu í Austur-Kongó en þar hafa 135 látist úr ebólu frá því í ágúst.

Nefndin mun hittast á fundi í Genf á morgun, miðvikudag. Á þeim fundi verður m.a. lagt mat á hvort að faraldurinn sé orðinn svo hömlulaus að hann ógni heilsu almennings á alþjóðavísu.

Slík flokkun er óvenjuleg en við hana er viðurkennt að sjúkdómur gæti breiðst út yfir landamæri og að alþjóðasamfélagið þurfi að bregðast við honum.

WHO færði fyrst faraldur á þetta viðbúnaðarstig árið 2009 er svínaflensan hóf að breiðast út. Sambærilegur viðbúnaður var viðhafður árið 2014 er lömunarveiki hóf að breiðast út að nýju eftir að næstum því hafði tekist að útríma sjúkdómnum. Þá var einnig farið á þetta háa viðbúnaðarstig í ebólu-faraldrinum í Vestur-Afríku og er faraldur zika-veiru varð árið 2016. 

Um helgina greindi heilbrigðisráðherra Austur-Kongó frá því að önnur bylgja ebóla-veirunnar væri að breiðast út og valda faraldri í Norður-Kivu. 

Á því svæði eru skærur milli vopnaðra hópar tíðar. Það hefur m.a. orðið til þess að íbúarnir vantreysta yfirvöldum og þar af leiðandi heilbrigðisstarfsfólki sem  hefur gert því erfiðara um vik að sinna sjúkum sem og forvarnarstarfi.

Þetta er í tíunda sinn sem ebólu-faraldur herjar á íbúa Austur-Kongó frá því að veiran uppgötvaðist árið 1976. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert