Ver útlínur fríverslunarsamnings

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, varðist harðri gagnrýni í breska þinginu í dag eftir að samninganefndir breskra stjórnvalda og Evrópusambandsins komu sér saman um meginlínur mögulegs fríverslunarsamnings á milli Bretlands og sambandsins.

May hafði áður kynnt til sögunar samning um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem samninganefndirnar höfðu komið sér saman um og gert er ráð fyrir að taki gildi 29. mars á næsta ári þegar Bretar munu formlega segja skilið við sambandið.

Fyrirhugaður útgöngusamningur hefur mætt harðri andstöðu og sögðu nokkrir breskir ráðherrar af sér embætti í mótmælaskyni. Kröfur hafa komið fram innan ríkisstjórnarinnar um að samningnum verði breytt en May hefur sagt hann endanlegan.

Fyrir vikið er talið alls óvíst hvort May takist að koma útgöngusamningnum í gegnum breska þingið. Fram kemur í frétt AFP að forsætisráðherrann vonist til þess að samkomulagið um útlínur mögulegs fríverslunarsamnings auki stuðning við samninginn.

Hins vegar nær samkomulagið um mögulegan fríverslunarsamning ekki til erfiðra mála eins og fiskveiðiheimilda og stöðu Gíbraltar. Þá hefur samkomulagið verið gagnrýnt fyrir þá sök að það sé ekki lagalega bindandi líkt og útgöngusamningurinn.

Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði að samkomulagið væri út í hött og fleiri þingmenn Íhaldsflokks Mays hafa gagnrýnt það. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir að flokkur hans muni ekki styðja samkomulagið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert