May biður þjóðina um stuðning

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að Brexit sé skref í …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að Brexit sé skref í rétta átt fyrir bresku þjóðina. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur skrifað bresku þjóðinni opið bréf þar sem hún hvetur landsmenn til að styðja Brexit-samkomulagið. Gert er ráð fyrir að leiðtogar ESB-ríkjanna samþykki útgöngusamninginn og yfirlýsinguna á fundi sem hefst í dag.

Leiðtogar Bretlands og Evrópusambandsins náðu á fimmtudaginn samkomulagi í meginatriðum um drög að yfirlýsingu um tengsl landsins við ESB eftir útgöngu þess úr sambandinu.

May segir í bréfinu að samkomulagið sé skref í átt að bjartari framtíð fyrir Bretland. Útgangan á næsta ári muni marka tímamót endurnýjunar og sáttar hjá bresku þjóðinni, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins. 

Leiðtogar ESB-ríkjanna eru nú komnir í Brussel í Belgíu þar sem þeir munu taka afstöðu með eða á móti samkomulaginu.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hefur hvatt öllu aðildarríkin til að samþykkja samninginn. 

Spánverjar, sem höfðu hótað að sniðganga fundinn, munu senda sína fulltrúa til Belgíu í kjölfar deilu um Gíbraltar sem var leyst á síðustu stundu í gær. 

Fari það svo að leiðtogar ESB-ríkjanna leggi blessun sína yfir samkomulagið, þá á May eftir að fá breska þingið til að samþykkja samninginn. Margir breskir þingmenn, þar á meðal félagar May úr breska Íhaldsflokknum, hafa lýst því yfir að þeir muni greiða atkvæði gegn samkomulaginu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert