Komið að úrslitastundu hjá May?

Mótmælandi fyrir utan breska þinghúsið í dag sem telur útgöngusamning …
Mótmælandi fyrir utan breska þinghúsið í dag sem telur útgöngusamning Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, ekki vera raunverulega útgöngu. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hvatti þingmenn í neðri deild breska þingsins í dag til þess að samþykkja samning hennar um útgöngu landsins úr Evrópusambandinu en til stendur að greidd verði atkvæði um hann annað kvöld. Hugsanlegt er að vantraust verði lagt fram á ríkisstjórnina af stjórnarandstöðunni verði samningnum hafnað.

Mikil andstaða er við útgöngusamning forsætisráðherrans við Evrópusambandið og ekki síst innan þingflokks Íhaldsflokks ráðherrans. Hefur verið talað um að samningnum gæti verið hafnað með allt að 200 atkvæða mun. May hafði upphaflega í hyggju að leggja samninginn í atkvæði fyrir jól en frestaði því vegna andstöðunnar.

May varaði þingmenn við því í umræðum í neðri deildinni í dag að ef útgöngusamningi hennar yrði hafnað gæti það leitt til þess að Bretland yrði áfram í Evrópusambandinu. May hefur reynt að fá forystumenn sambandsins til þess að veita frekari tilslakanir en þeir hafa ítrekað hafnað því að til greina komi að breyta samningnum.

May hafði heitið þinginu því þegar hún frestaði atkvæðagreiðslunni í desember að hún ætlaði að fá lagalega bindandi tryggingu frá Evrópusambandinu um að Bretland ætti ekki á hættu að sitja fast í tollabandalagi sambandsins um ókomna tíð ef útgöngusamningurinn yrði samþykktur. Það reyndist hins vegar ekki í boði.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við þingmenn í breska þinginu …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við þingmenn í breska þinginu í dag. AFP

Forsætisráðherrann ítrekaði við þingmenn í dag að útgöngusamningur hennar væri það eina sem væri í boði. Hvatti hún þá til þess að skoða hann betur. Samningurinn væri ekki fullkominn, hann væri málamiðlun. Hann væri eina leiðin til þess að forðast það að yfirgefa Evrópusambandið án sérstaks samnings um útgönguna.

May sagði hins vegar í dag að hún teldi meiri líkur á því að Bretland yrði áfram í Evrópusambandinu ef útgöngusamningi hennar yrði hafnað en að það leiddi til útgöngu án sérstaks samnings. Ástæðan er talin sú að stuðningur við útgöngu án samnings hefur farið vaxandi og ekki síst á meðal þingmanna íhaldsmanna.

Breskir fjölmiðlar segja að stuðningur við útgöngu án samnings teygi sig inn í ríkisstjórn May sem orðið hafi til þess að forsætisráðherrann hafi dregið úr þeim málflutningi að tala um að án samnings gæti útganga án samnings orðið niðurstaðan og þess í stað talað um að við þær aðstæður gæti alls ekkert orðið af útgöngunni.

Kæmi til þess að komið yrði í veg fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa ýmsir stjórnmálamenn varað við því að það yrði varla liðið af fjölmörgum kjósendum, einkum í röðum þeirra sem stutt hafi útgönguna. Slíkt gæti bæði valdið mikilli reiði á meðal þeirra og eins auknu vantrausti í garð stjórnmálamanna og lýðræðisins.

AFP

Til stendur að Bretland yfirgefi Evrópusambandið 29. mars en sú ákvörðun hefur þegar verið bundin í bresk lög. Það var gert þegar útgönguákvæði Lissabon-sáttmála sambandsins var virkjað af bresku ríkisstjórninni fyrir tæpum tveimur árum. Þetta felur í sér að Bretland fer úr Evrópusambandinu á þeim degi með eða án samnings.

Til þess að koma í veg fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings, sem þýddi að viðskipti Bretlands við sambandið færu fram á grundvelli reglna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), þurfa breskir þingmenn að grípa með einhverjum hætti inn. Hins vegar er engin samstaða um með hvaða hætti.

Þannig er engin samstaða í breska þinginu um víðtækan fríverslunarsamning, ekki um hliðstætt fyrirkomulag og EES-samninginn, ekki um að halda annað þjóðaratkvæði eða hvað eigi að spyrja um í því (meirihluti breskra kjósenda samþykkti útgöngu úr sambandinu í þjóðaratkvæði sumarið 2016) og ekki um að fresta útgöngunni.

Flest af þessum leiðum sem rætt hefur verið um þyrfti frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Fyrir vikið telja margir að þrátt fyrir allt sé útganga úr Evrópusambandinu án samnings líklegust þar sem hún sé hin sjálfgefna niðurstaða verði ekkert annað ákveðið. Hvort sú verði raunin eða ekki á hins vegar eftir að koma í ljós á næstu vikum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert