May: Tölum um Brexit

Ríkisstjórn Theresu May, leiðtoga Íhaldsflokksins, stóð af sér vantraust á …
Ríkisstjórn Theresu May, leiðtoga Íhaldsflokksins, stóð af sér vantraust á þinginu í gær og segir May að hún vilji samráð við alla flokka á þinginu um Brexit. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, vill setjast niður með Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins á breska þinginu, og ræða möguleg úrlausnarefni á stöðunni sem upp er komin í breskum stjórnmálum eftir að þingið hafnaði Brexit-samningi ríkisstjórnarinnar og ESB.

Ríkisstjórn May stóð af sér vantraust á þinginu í gær og segir May að hún vilji samráð við alla flokka á þinginu um Brexit. Corbyn hefur sagt að hann vilji ekki taka þátt í samningaviðræðum fyrr en May útiloki að Bretar gangi út úr Evrópusambandinu án samnings, en það segir May ómögulegt.

May hefur fundað með leiðtogum allra þingflokka frá því að samningnum var hafnað á þriðjudag til að ræða mögulegar málamiðlanir um næstu skref. Corbyn lýsir viðræðunum sem „glæfrabragði“ forsætisráðherrans og hefur hann engan áhuga á að taka þátt í þeim, að minnsta kosti ekki fyrr en May heiti því að Bretland muni ekki ganga út úr ESB án samnings.

May mun leggja fram nýja áætlun um umfjöllun þingsins um Brexit á mánudag og hefur ný atkvæðagreiðsla verið sett á dagskrá þingsins 29. janúar.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert