Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvatti í gær breska þingið til þess að halda annað þjóðaratkvæði um útgöngu Bretlands úr sambandinu með það fyrir augum að koma í veg fyrir að útgöngunni verði hrint í framkvæmd.
Haft er eftir Pierre Moscovici, efnahagsstjóra Evrópusambandsins, á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Bretar og sambandið ættu svo mikið sameiginlegt og miklu betra væri fyrir þá að vera áfram innan þess.
Moscovici lét ummælin falla á efnahagsráðstefnunni í Davos. „Ef eina leiðin út úr þessum vandræðum er önnur þjóðaratkvæðagreiðsla, þá hvers vegna ekki? Það væri fullkomlega löglegt.“ Vísaði hann til fordæmis frá Írlandi.
Þannig hefðu Írar kosið aftur í þjóðaratkvæði um Nice-sáttmála Evrópusambandsins og samþykkt hann eftir að hafa áður hafnað honum með sama hætti. Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæði sumarið 2016 að yfirgefa sambandið.
Til stendur að Bretland yfirgefi Evrópusambandið formlega 29. mars hvort sem útgöngusamningur við sambandið liggur fyrir eða ekki, en illa hefur gengið hjá breskum stjórnvöldum að semja um fyrirkomulag útgöngunnar.