„Sérstakur staður í helvíti“

Don­ald Tusk, for­seti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, segir að það sé „sérstakur staður í helvíti fyrir þá sem tala fyrir því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu án nokkurs konar snefils af áætlun um skipulagða útgöngu“.

Tusk lét þessi orð falla á blaðamannafundi í Brussel í dag og breskir þingmenn sem eru hlynntir útgöngu úr ESB saka Tusk um hroka. Breska forsætisráðuneytið segir að Tusk ætti heldur að spyrja sjálfan sig hvort honum finnist talsmáti af þessu tagi koma að gagni í Brexit-viðræðunum.

Nigel Farage, óháður þingmaður Evrópuþingsins og fyrrverandi leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins UKIP, segir að þegar útganga Breta úr ESB verði loks gengin í gegn verði breska þjóðin laus við hrokafulla fanta eins og Tusk sem enginn kaus og geti í stað þess stjórnað ríki sínu ein og óstudd. „Það hljómar frekar eins og himnaríki fyrir mér,“ segir Farage í færslu á Twitter.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er væntanleg til Brussel á morgun til að funda um næstu skref Breta um útgöngu úr sambandinu. Hvað hún mun nákvæmlega leggja fram liggur hins vegar ekki ljóst fyrir.

Útganga án samnings er því enn möguleg, en áætluð útganga Breta úr ESB er áætluð 29. mars næstkomandi. Líklegast þykir þó að útgöngunni verði frestað og viðræður breskra stjórnvalda við leiðtoga ESB um endurskoðun á Brexit-samningnum fari fram.

Frétt BBC

Donald Tusk, for­seti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, segir sérstakan stað í helvíti …
Donald Tusk, for­seti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, segir sérstakan stað í helvíti fyrir þá sem vilja að Bretland gangi úr ESB án samnings. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert