Ekki er meirihluti fyrir því í breska þinginu að efnt verði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, að því er Reuters-fréttaveitan greinir frá. Algjör pattstaða virðist nú ríkja í þinginu um útgönguna.
Hafa valdamiklir þingmenn Íhaldsflokksins hvatt Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, til að hætta við atkvæðagreiðslu í þinginu á morgun um samninginn sem hún hefur náð við ESB. Ástæðuna segir breska dagblaðið Times vera þá að miklar líkur séu á að May bíði afhroð í þeirri atkvæðagreiðslu.
Algjör pattstaða ríkir líka í samningaviðræðum Breta og ESB samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu. Bretar ætla að yfirgefa Evrópusambandið í lok þessa mánaðar og hefur lítið þokast í samningaviðræðum sem gerir samningana hagfelldari Bretum.
May ræddi við Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í gær eftir að viðræður helgarinnar skiluðu engu. Samningaviðræðum verður svo haldið áfram í dag í von um að ná fram einhverjum breytingum áður en May þarf að leggja samninginn fyrir breska þingið á morgun.
Óánægja með samninginn, sem BBC segir hafa tekið litlum breytingum frá því hann var fyrst lagður fram, hefur leitt til þess að kröfur um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu hafa gerst háværari. Þannig sögðu forsvarsmenn Verkamannaflokksins í síðasta mánuði að flokkurinn muni styðja þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. Í gær gáfu forsvarsmenn flokksins hins vegar í skyn að slík tillaga yrði ekki lögð fram að sinni.
Meirihluti þingmanna var fylgjandi áframhaldandi veru Breta í ESB árið 2016 þegar fyrri þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram. Minnihluti þingmanna virðist hins vegar nú vera fylgjandi annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Segir Reuters 219 þingmenn hafa lýst sig fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu, en 65 hafa ekki gefið upp afstöðu sína. Slík tillaga þyrfti hins vegar stuðning 318 þingmanna ætti hún að ná í gegn.