Tæplega helmingur Breta telur að hagsmunum Bretlands verði á endanum borgið ef landið yfirgefur Evrópusambandið án þess að semja um sérstakan útgöngusamning við sambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar.
Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að samkvæmt könnuninni, sem gerð var fyrir blaðið af fyrirtækinu ComRes, teldu 46% þannig að útganga án samnings myndi leiða til einhverrar óvissu en að lokum fara vel á sama tíma og 40% vildu fresta útgöngunni sem gert er ráð fyrir að verði 29. mars.
Þrír af hverjum tíu Bretum (30%) telja að útganga úr Evrópusambandinu án samnings 29. mars sé besta mögulega leiðin til þess en 43% eru því ósammála. Spurðir hvort það veikti samningsstöðu Bretlands að útiloka útgöngu án samnings svaraði helmingur aðspurðra því játandi en tæpur fjórðungur hafnaði því.
Enn fremur svöruðu einungis 14% játandi spurð hvort samningur við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands, sem Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur samið um, fæli í sér raunverulega útgöngu úr sambandinu en 54% voru því ósammála.
Þá sögðust 37% hafa í kjölfar þjóðaratkvæðisins, sem fram fór í Bretlandi 2016 um útgöngu úr Evrópusambandinu, reiknað með því að gengið yrði úr sambandinu án útgöngusamnings en 20% að það yrði gert með samningi.