Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, hyggst segja af sér embætti þegar breska þingið hefur samþykkt útgöngusamning Bretlands og Evrópusambandsins um Brexit.
Frá þessu greindi hún á fundi með þingflokki Íhaldsflokksins síðdegis. Ákvörðunina tekur hún til að greiða fyrir stuðningi innan Íhaldsflokksins við Brexit-samninginn, sem hefur tvívegis verið kolfelldur á þinginu.
May segist vera tilbúin að láta af störfum fyrr en áætlað var þar sem það sé hið rétta í stöðunni, bæði fyrir bresku þjóðina og Íhaldsflokkinn.
„Ég skynja mætavel stemninguna í þingflokknum. Ég veit að þingmenn hafa óskað eftir nýrri nálgun - og nýjum leiðtoga - í öðrum hluta Brexit-viðræðna og ég mun ekki standa í vegi fyrir því,“ segir May.
May ætlar að halda ótrauð áfram og leggja samninginn fyrir þingið í þriðja skipti, þrátt fyrir að John Bercow, forseti þingsins, segir það ekki samræmast þingsköpum.
Hér má fylgjast með beinni lýsingu Breska ríkisútvarpsins á því sem fram fer á breska þinginu í kvöld, en til stendur að greiða atkvæði um átta mögulegar leiðir til að finna lausn á fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Upphaflega stóð til að Bretar segðu skilið við ESB á föstudag, 29. mars, en leiðtogar Evrópusambandsins hafa samþykkt áætlun um að fresta Brexit. Meðal tillagna sem greidd verða atkvæði um í kvöld er að Bretland gangi úr ESB 12. apríl næstkomandi án samnings. Í annarri felst að draga til baka 50. grein Lissabon-sáttmálans sem felur í sér ótímabundna frestun á Brexit.
Enn önnur tillagan felst svo í að samþykkja Brexit-samning May og leggja hann í þjóðaratkvæðagreiðslu. Möguleikarnir eru því fjölbreyttir og mun framhald Brexit skýrast að einhverju leyti í kvöld.