May víkur þegar Brexit-samningurinn er í höfn

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, hyggst segja af sér embætti þegar breska þingið hefur samþykkt útgöngusamning Bretlands og Evrópusambandsins um Brexit. 

Frá þessu greindi hún á fundi með þingflokki Íhaldsflokksins síðdegis. Ákvörðunina tekur hún til að greiða fyrir stuðningi innan Íhaldsflokksins við Brexit-samninginn, sem hefur tvívegis verið kolfelldur á þinginu. 

May segist vera tilbúin að láta af störfum fyrr en áætlað var þar sem það sé hið rétta í stöðunni, bæði fyrir bresku þjóðina og Íhaldsflokkinn. 

„Ég skynja mætavel stemninguna í þingflokknum. Ég veit að þingmenn hafa óskað eftir nýrri nálgun - og nýjum leiðtoga - í öðrum hluta Brexit-viðræðna og ég mun ekki standa í vegi fyrir því,“ segir May. 

May ætlar að halda ótrauð áfram og leggja samninginn fyrir þingið í þriðja skipti, þrátt fyrir að John Bercow, forseti þingsins, segir það ekki samræmast þingsköpum. 

Hér má fylgjast með beinni lýsingu Breska ríkisútvarpsins á því sem fram fer á breska þinginu í kvöld, en til stendur að greiða atkvæði um átta mögu­leg­ar leiðir til að finna lausn á fyr­ir­hugaðri út­göngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu.

Upphaflega stóð til að Bretar segðu skilið við ESB á föstudag, 29. mars, en leiðtog­ar Evr­ópu­sam­bands­ins hafa samþykkt áætl­un um að fresta Brex­it. Meðal tillagna sem greidd verða atkvæði um í kvöld er að Bretland gangi úr ESB 12. apríl næstkomandi án samnings. Í annarri felst að draga til baka 50. grein Lissabon-sáttmálans sem felur í sér ótímabundna frestun á Brexit. 

Enn önnur tillagan felst svo í að samþykkja Brexit-samning May og leggja hann í þjóðaratkvæðagreiðslu. Möguleikarnir eru því fjölbreyttir og mun framhald Brexit skýrast að einhverju leyti í kvöld. 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert