Minnstur stuðningur við EES

Stuðningsmenn útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu komu saman í London, höfuðborg …
Stuðningsmenn útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu komu saman í London, höfuðborg landsins, í dag. AFP

Minnstur stuðningur reyndist vera á meðal þingmanna í neðri deild breska þingsins við þá leið að Bretland gerðist aðili að EES-samningnum í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA), líkt og Ísland, Noregur og Liechtenstein, þegar greidd voru atkvæði á miðvikudaginn um ólíkar leiðir vegna fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Engin af leiðunum átta hlaut meirihluta þeirra atkvæða sem greidd voru og var þeim því öllum hafnað. Með mismiklum mun þó. Minnstur stuðningur var, sem fyrr segir við EES-samninginn í gegnum EFTA, eða 65 atkvæði af þeim 442 atkvæðum sem greidd voru. Næstminnstur var við skipulagða útgöngu án útgöngusamnings, eða 139 atkvæði af 561 sem greitt var, og þriðji minnsti við útgöngu án samnings eða 160 atkvæði af 560.

Þingmennirnir höfnuðu einnig annarri útgáfu af aðild að EES-samningnum sem gengur undir nafninu Common Market 2.0 og þýddi að Bretland yrði að auki áfram í tollasamstarfi við Evrópusambandið. Sú leið naut stuðnings 188 þingmanna af 471 sem greiddu atkvæði um hana. Mestur stuðningur var við að Bretland yrði áfram í tollabandalagi með sambandinu og að haldið yrði þjóðaratkvæði um hvern þann samning sem samið yrði um.

Reiknað er með að þingmenn neðri deildarinnar muni á mánudaginn greiða atkvæði aftur um þessar tvær leiðir eftir að útgöngusamningi sem Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, samdi um við Evrópusambandið var hafnað í dag í þriðja sinn. Möguleikarnir í stöðunni nú eru taldir annars vegar vera útganga án samnings 12. apríl eða að útgöngunni, sem átti upphaflega að vera í dag, verði frestað enn frekar.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur tekið jákvætt í þann möguleika að Bretland gerist aðili að EES-samningnum í gegnum EFTA en norskir ráðamenn hafa verið meira hikandi í þeim efnum. Bresk stjórnvöld hafa hins vegar ekki lýst áhuga sínum á þeirri leið og sagt að hún sé ekki fýsileg fyrir Bretland.

Meirihluti þingmanna á breska þinginu hafnaði einnig aðild að EES-samningnum í gegnum EFTA síðasta sumar. Þá studdu 126 þingmenn það af 453 sem greiddu atkvæði eða um tvöfalt fleiri en studdu þá leið á miðvikudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert