Telja Theresu May vera vandamálið

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, stendur frammi fyrir kröfum frá þingmönnum Íhaldsflokksins um að hætta þegar í stað sem leiðtogi hans eftir að háttsettir fulltrúar þingflokksins tjáðu henni að hún væri nú vandamál flokksins.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að fulltrúar frá hinni áhrifamiklu 1922-nefnd óbreyttra þingmanna Íhaldsflokksins hafi fundað með May á skrifstofu forsætisráðherrans í Downingstræti 10 í London og sagt henni að bæði flokksmenn og aðrir stuðningsmenn flokksins hefðu snúist gegn henni.

Þykir minna á síðustu daga Thatchers

Heimildarmaður blaðsins segir May hafa hlustað á þingmennina lýsa því hvernig hún væri að stórskaða Íhaldsflokkinn án þess að segja neitt. Hún hafi síðan neitað að ræða um framtíð sína. Aðstæðurnar eru sagðar minna á síðustu dagana áður en Margaret Thatcher, þáverandi leiðtogi flokksins, sagði af sér fyrir tæpum 30 árum.

Flokksmenn eru sagðir hafa snúist endanlega gegn May um helgina eftir að hún hóf viðræður við Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, um mögulegt samstarf um það hvernig eigi að lenda útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Viðræðurnar við Corbyn snúast einkum um að Bretland verði áfram í tollabandalagi Evrópusambandsins eða í tollabandalagi með sambandinu. Þar með gæti landið ekki samið um sjálfstæða viðskiptasamninga við önnur ríki, en það er eitthvað sem stuðningsmenn útgöngunnar hafa litið á sem einn stærsta kostinn við að yfirgefa Evrópusambandið.

Hafði áður ítrekað hafnað tollabandalagi

May hafði áður ítrekað þvertekið fyrir að Bretland yrði áfram innan tollabandalags Evrópusambandsins. Forystumenn sambandsins hafa hvatt May og Corbyn til að ná saman um að Bretar verði áfram innan tollabandalagsins.

Til stóð að Bretland segði skilið við Evrópusambandið 29. mars í kjölfar þjóðaratkvæðisins sumarið 2016 þar sem útgangan var samþykkt. Því var hins vegar frestað til 12. apríl og hefur May þegar beðið sambandið um frekari frest til þess að forða því að Bretland gangi úr því án þess að samið verði um útgöngusamning.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert