Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, féllst í nótt á boð Evrópusambandsins um sex mánaða viðbótarfrest fyrir Breta til að ganga úr ESB. May þarf þó að sögn Guardian að tryggja Brexit-samkomulaginu stuðning í neðri deild breska þingsins.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, staðfesti á Twitter um miðnætti að samkomulag um útgöngufrest til 31. október hefði náðst, en greint var frá því í gærkvöldi að leiðtogaráð ESB hefði boðið Bretum þennan frest til að forðast að Bretland yfirgefi ESB samningslaust.
Framlengingin er þó sveigjanleg og geta Bretar yfirgefið sambandið fyrr, takist samkomulag um útgönguna fyrir þann tíma.
„Þessi framlenging er eins sveigjanleg og ég átti von á, en nokkuð styttri en ég bjóst við. Hún ætti þó að duga til að komast niður á bestu mögulegu lausnina,“ sagði Tusk á fundi með fjölmiðlum. Hann hafði líka skilaboð til Breta varðandi framlenginguna: „Ekki láta þennan tíma fara til spillis,“ sagði Tusk.
Er May ræddi við fjölmiðla eftir fundinn með ESB kom hún sér ítrekað hjá því að svara spurningum um framtíð sína sem forsætisráðherra, en hún hafði áður sagt að hún myndi ekki fallast á framlengingu til lengri tíma en 30. júní.
Fullyrti May raunar að Bretland gæti enn yfirgefið ESB 22. maí svo framarlega sem breska þingið samþykki útgöngusamningin.
Þá kenndi hún aftur breskum þingmönnum um stöðuna. Spurð hvort hún ætti að biðjast afsökunar á því að Bretland væri enn í ESB, sagði May: „Undanfarna þrjá mánuði hef ég í þrígang lagt fram frumvarp um útgöngusamning úr ESB. Ef nægur fjöldi þingmanna hefði greitt honum atkvæði sitt í janúar værum við þegar búin að yfirgefa ESB.
May mun flytja yfirlýsingu um stöðu mála í breska þinginu síðdegis í dag.