Brexit-flokkurinn með mest fylgi

Nigel Farage stofnaði Brexit-flokkinn.
Nigel Farage stofnaði Brexit-flokkinn. AFP

Stjórnmálaflokkur sem var formlega stofnaður á síðasta föstudag mælist með mest fylgi vegna fyrirhugaðra kosninga í Bretlandi til þings Evrópusambandsins.

Til stóð að Bretar tækju ekki þátt í kosningunum þar sem þeir yrðu formlega gengnir úr Evrópusambandinu áður til þeirra kæmi. Hins vegar er útlit fyrir að af kosningunum verði í kjölfar ákvörðunar um að fresta útgöngu landsins þar til næsta haust.

Flokkurinn sem mælist með mest fylgi nefnist Brexit-flokkurinn og var stofnaður af Nigel Farage, fyrrverandi leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins.

Flokkurinn berst fyrir því að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu verði með þeim hætti að sambandið hafi ekkert vald yfir breskum málum þegar út er komið.

Flokkurinn mælist með 27% fylgi í skoðanakönnun fyrirtækisins YouGov, næst kemur Verkamannaflokkurinn með 22%, þá Íhaldsflokkurinn með 15%, Græningjar með 10%, Frjálslyndir demókratar með 9% og Breski sjálfstæðisflokkurinn með 7%.

Brexit-flokkurinn mældist með 15% fyrir helgi og Breski sjálfstæðisflokkurinn með 14%.

Fréttvefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka