Þekktur morðingi og níðingur til rannsóknar

Madeleine McCann.
Madeleine McCann.

Dæmdur barnaníðingur og fjöldamorðingi frá Þýskalandi er einn þeirra sem portúgalska lögreglan rannsakar í tengslum við hvarfið á Madeleine McCann. Þetta hefur breska blaðið Telegraph eftir fyrrverandi rannsóknarlögreglumanni í Portúgal. 

Martin Ney, sem er 48 ára gamall, afplánar nú lífstíðardóm fyrir að hafa rænt þremur þýskum börnum og myrt á árunum 1992 til 2001. Hann þykir svipa mjög til manns á samsettri ljósmynd af manni samkvæmt lýsingu vitna og er talið að hann hafi verið í Portúgal 2007 þegar Madeleine var rænt. 

Ney hefur áður verið yfirheyrður af rannsóknarlögreglunni vegna hvarfs Madeleine en neitar að hafa átt aðild að hvarfi stúlkunnar. 

Samkvæmt Telegraph réðst Ney, sem er frá Hamborg, á börnin þar sem þau voru í fríi. Stundum með því að fara inn í íbúðir eða tjöld sem þau voru í. Hann var með grímu og vopnaður þegar hann rændi börnunum.

Árið 1992 myrti hann Stefan Jahr, 13 ára, og ári síðar rændi hann og myrti Dennis Rostel sem var átta ára. Árið 2001 myrti hann Dennis Klein sem einnig var átta ára. Hann er grunaður um að hafa myrt barn í Hollandi árið 1998 og Frakklandi árið 2004. Öll fyrri fórnarlömb Ney hafa verið drengir en þrátt fyrir það telur lögreglan að hann geti hafa verið að verki í Portúgal. 

Hann er kennaramenntaður og ferðaðist víða eftir að hafa lokið námi. Meðal annars til Ekvador, Perú og Portúgal. Myndin sem um ræðir var gefin út árið 2013 af manni sem þótti hegða sér grunsamlega í Paria da Luz um svipað leyti og Madeleine var rænt.

Á föstudaginn voru tólf ár liðin frá hvarfi litlu stúlkunnar en 12. maí verður hún 16 ára gömul ef hún er enn á lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert