„Svona er að upplifa tortímingu“

Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á þingi Evrópusambandsins.
Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á þingi Evrópusambandsins. mbl.is/Rósa Braga

„Þannig að svona er að upplifa tortímingu,“ segir Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á þingi Evrópusambandsins, í grein á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í dag þar sem hann spáir því að flokkur hans fái enga þingmenn kjörna í kosningum til þingsins sem fram fóru á fimmtudaginn.

Breskir íhaldsmenn hafa í dag 18 þingmenn á þingi Evrópusambandsins sem þeir fengu kjörna í kosningum 2014. „Ég vil ekki vera of bráður á mér, við munum ekki fá að vita niðurstöður kosninganna fyrr en snemma á mánudagsmorguninn. En ég get sagt ykkur núna að Íhaldsflokkurinn hefur verið útmáður,“ segir Hannan.

Þingmaðurinn segist þannig ekki eiga von á að halda þingsæti sínu fyrir suðvesturhluta Bretlands, en hann hefur af stjórnmálaskýrendum verið talinn hvað líklegastur til þess. Hannan segir að hafi hann misst sæti sitt þá megi gera ráð fyrir því að það sama eigi við um alla þingmenn Íhaldsflokksins á þingi Evrópusambandsins.

Óánægja með að Bretar séu enn í ESB

Hannan segist aðallega byggja mat sitt á eigin upplifun í kosningabaráttunni. Skoðanakannanir hafa hins vegar bent til þess að flokkurinn fengið harða útreið í kosningunum á sama tíma og Brexitflokkurinn, sem leggur áherslu á að Bretland segi að fullu skilið við Evrópusambandið, bæti miklu fylgi við sig.

Til stóð að Bretar væru farnir úr Evrópusambandinu áður en kosningarnar færu fram og myndu því ekki taka þátt í þeim. Hins vegar hefur útgöngunni, sem átti að eiga sér stað 29. mars, verið frestað þar til 31. október. Þær kosningahrakfarir sem búist er við að Íhaldsflokkurinn verði fyrir eru raktar til óánægju kjósenda flokksins með það hvernig staðið hafi verið að útgöngunni og að af henni hafi ekki enn orðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert