Brexitflokkurinn, sem vann stórsigur í kosningum til þings Evrópusambandsins í Bretlandi í síðasta mánuði, myndi einnig fá flest atkvæði ef kosið væri til breska þingsins ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins Opinium.
Fram kemur á vef breska dagblaðsins Guardian að Brexitflokkurinn, sem lýtur forystu Nigels Farage þingmanns á þingi ESB og fyrrverandi leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins, fengi þannig 26% fylgi samkvæmt könnuninni og 306 þingmenn.
Þetta þýddi, segir í fréttinni, að Brexitflokkinn vantaði aðeins 20 þingmenn upp á að ná hreinum meirihluta á breska þinginu en þar sitja samtals 650 þingmenn. Íhaldsflokkurinn fengi hins vegar aðeins 17% fylgi og samtals 26 þingsæti.
Tekið er hins vegar fram að útreikningum á þingsætum þyrfti að taka með fyrirvara þar sem litlar sveiflur til og frá gætu breytt miklu. Verkamannaflokkurinn fengi næst mest fylgi samkvæmt könnuninni eða 22% og Frjálslyndir demókratar 16% fylgi.