Breski stjórnmálaflokkurinn Change UK, sem stofnaður var fyrr á þessu ári eftir að nokkrir þingmenn klufu sig annars vegar út úr Íhaldsflokknum og hins vegar Verkamannaflokknum, klofnaði í dag þegar sex af þeim ellefu þingmönnum sem stofnuðu flokkinn yfirgáfu hann.
Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að þingmennirnir sex ætli sér að sitja sem óháðir þingmenn í neðri deild breska þingsins. Fram komi í yfirlýsingu þeirra að þeir beri mikla virðingu fyrir fyrrverandi félögum sínum en séu ekki sáttir við það með hvaða hætti hafi verið haldið á málum Change UK, en flokkurinn var einkum stofnaður með það að markmiði að vera ferskt stjórnmálaafl andvígt útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Change UK fékk engan fulltrúa kjörinn í kosningum til þings Evrópusambandsins í síðasta mánuði sem leiddi til mikilla deilna innan flokksins um kosningaherferð hans. Þingmennirnir sem yfirgefið hafa Change UK eru Heidi Allen, sem var starfandi leiðtogi flokksins, Sarah Wollaston, Luciana Berger, Gavin Shuker, Angela Smith og Chuka Umunna.