Vænta stórra skrefa í átt að sambandsríki

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, sem tilnefnd hefur verið …
Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, sem tilnefnd hefur verið sem næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er stuðningsmaður þess að sambandinu verði breytt í sambandsríki. AFP

Hvatamenn þess að Evrópusambandinu verði formlega breytt í sambandsríki gera sér vonir um að stór skref verði tekin í þá átt undir fyrirhugaðri nýrri forystu sambandsins. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í dag.

Ursula von der Leyen hefur ítrekað lýst þeirri skoðun sinni á liðnum árum að hún vilji að Evrópusambandið verði að sambandsríki á svipuðum nótum og Bandaríkin eða Sviss. Þá hefur hún einnig verið mikill talsmaður þess að sambandið komi sér upp eigin her. Fleiri forystumenn innan Evrópusambandsins hafa talað á sömu nótum á undanförnum árum.

Haft er eftir Christoph Glück, forseta samtakanna Young European Federalists, að ljóst sé að von der Leyen sé hlynnt því lokamarkmiði að Evrópusambandið verði að Bandaríkjum Evrópu og þá liggi einnig fyrir að hún vilji Evrópusambandsher.

Forseti samtakanna Spinelli Group, sem vilja að Evrópusambandið verði að sambandsríki, Andrew Duff, segir von der Leyen líkt og Helmut Kohl, fyrrverandi kanslara Þýskalands, líta á sambandið sem óklárað verkefni hvar lokatakmarkið sé sambandsríki.

Duff segir að auðveldara verði fyrir von der Leyen að ná þessu lokamarkmiði eftir að Bretland yfirgefi Evrópusambandið enda hafi Bretar beitt sér gegn þessari þróun. Útganga Breta úr sambandinu muni fjarlægja stærstu hindrunina á þeirri leið.

Verði tilnefning von der Leyen staðfest af þingi Evrópusambandsins 16. júlí tekur hún við embætti 1. nóvember og verður þá fyrsta konan til þess að gegna því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert