Verði Boris Johnson næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands og takist honum í kjölfarið að leiða Breta úr Evrópusambandinu fyrir 31. október myndu þeir kjósendur flokksins, sem að undanförnu hafa lýst yfir stuðningi við Brexit-flokkinn í skoðanakönnunum, upp til hópa styðja hann á nýjan leik.
Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið Orb International framkvæmdi fyrir breska dagblaðið Daily Telegraph. Kannanir hafa sýnt mikinn og vaxandi stuðning við Brexit-flokkinn, sem stofnaður var fyrr á þessu ári og lýtur forystu Nigels Farage, undanfarna mánuði og þá einkum á kostnað Íhaldsflokksins.
Þannig myndu 92% kjósenda Íhaldsflokksins styðja flokkinn í næstu þingkosningum ef Bretland fer úr Evrópusambandinu 31. október en 5% Brexit-flokkinn. Verði Bretar ekki komnir úr sambandinu á þeim tímapunkti munu aðeins 56% kjósenda Íhaldsflokksins styðja flokkinn en 35% Brexit-flokkinn samkvæmt könnuninni.
Fram kemur í frétt blaðsins að niðurstöður könnunarinnar sýni hversu mjög gott gengi Íhaldsflokksins í næstu þingkosningum hvíli á því að næsta leiðtoga flokksins og forsætisráðherra Bretlands takist að koma Bretlandi úr Evrópusambandinu fyrir 31. október. Tilkynnt verður 22. júlí hver verði næsti leiðtogi Íhaldsflokksins.
Valið stendur á milli tveggja frambjóðenda sem félagar í Íhaldsflokknum kjósa á milli í póstkosningu, Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, og Jeremy Hunt, núverandi ráðherra utanríkismála. Báðir hafa þeir lagt áherslu á það að þeir séu best til þess fallnir að leiða Breta út úr Evrópusambandinu.