Ný ríkisstjórn tekur á sig mynd

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Samsetning ríkisstjórnar Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er smám saman að koma í ljós. Sajid Javid innanríkisráðherra hefur verið skipaður fjármálaráðherra og Priti Patel, fyrrverandi ráðherra þróunarmála, verður innanríkisráðherra. Þá hefur Dominic Raab, fyrrverandi ráðherra Brexitráðherra, verið skipaður utanríkisráðherra.

Johnson fékk í dag heimild Elísabetar Bretadrottingar til þess að mynda nýja ríkisstjórn. Fram hefur komið í breskum fjölmiðlum að Johnson ætli að mynda ríkisstjórn þar sem harðir stuðningsmenn útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verði í meirihluta. Stephen Barclay verður áfram Brexitráðherra og Michael Gove umhverfisráðherra verður í hlutverki varaforsætisráðherra.

Jeremy Hunt, mótherji Johnsons í leiðtogakjörinu í Íhaldsflokknum, fer úr ríkisstjórninni en hann gegndi embætti utanríkisráðherra. Honum var boðið embætti varnarmálaráðherra en afþakkaði það. Stuðningsmenn hans segja að hann hafi litið á það sem stöðulækkun og hafi ekki getað sætt sig við annað en að verða fjármálaráðherra, varaforsætisráðherra eða vera áfram í utanríkisráðuneytinu.

Samtals hafa 17 ráðherra horfið úr embætti í dag. Penny Mordaunt hlaut ekki náð fyrir augum Johnsons en hún hefur verið varnarmálaráðherra. Sama er að segja um Liam Fox, ráðherra aðlþjóðaviðskipta. Þau studdu bæði Hunt. Karen Bradley hverfur ennfremur úr embætti ráðherra málefna Norður-Írlands og David Mundel verður ekki lengur ráðherra málefna Skotlands. Greg Clark viðskiptaráðherra fer einnig úr ríkisstjórninni og sama er að segja um Jeremy Wright menningarmálaráðherra.

Þá óskaði Chris Grayling eftir því að hætta sem samgönguráðherra. Áður höfðu Philip Hammond fjármálaráðherra, David Gauke dómsmálaráðherra, Rory Stewart ráðherra þróunarmála meðal annars sagt af sér í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert