Bandaríkin verða að afnema höft á bresk fyrirtæki vilji þau gera fríverslunarsamning við Bretland. Þetta sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, áður en hann hélt á morgunverðarfund með Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Fundir G7-ríkjanna standa yfir um helgina og eru þar helst til umræðu jafnréttismál, loftslagsvá, tollastríð og útganga Bretlands úr Evrópusambandinu.
Trump segir viðamikinn fríverslunarsamning við Bretland í undirbúningi og eftir morgunverðarfund leiðtoganna tveggja lofaði hann því að samningurinn yrði stærri en nokkurn tímann áður. Bretar muni losna við „akkerið um ökklann“ sem þeir væru með, eins og forsetinn orðaði það.