Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands tapaði í kvöld atkvæðagreiðslu í breska þinginu um áætlun hans varðandi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu með 27 atkvæða mun.
Johnson tapaði meirihluta sínum á breska þinginu í dag þegar þingmaðurinn Philip Lee gekk til liðs við frjálslynda demókrata, en fyrir hafði ríkisstjórn Johnsons hafði aðeins eins manns meirihluta. Þá hafði á annan tug þingmanna íhaldsflokksins til viðbótar gefið til kynna að þeir myndu greiða atkvæði gegn stefnu Johnsons.
Féllu atkvæði þannig að 328 þingmenn neðri deildarinnar kusu með því að þingmönnum gæfist á morgun kostur á að kjósa um lagafrumvarp sem kann að neyða Johnson til að biðja Evrópusambandið um þriggja mánaða frest á útgöngunni takist honum ekki að komast að samkomulagi við ESB fyrir lok október. 301 þingmaður kaus gegn tillögunni, þar af 21 þingmaður Íhaldsflokksins.
Breskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Boris Johnson forsætisráðherra hafi hótað þeim þingmönnum Íhaldsflokksins brottrekstri sem greiða atkvæði gegn honum um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og greindi Reuters-fréttaveitan frá því fyrr í dag að Nicholas Soames, barnabarn Winstons Churchills, væri einn þeirra þingmanna. „Það er með trega sem ég mun greiða atkvæði gegn stjórninni í kvöld,“ sagði Soames.
Annar í þeim hópi er Ken Clarke, sem er elstur þeirra sem nú sitja í neðri deild þingsins, en Clarke var fjármálaráðherra í stjórn Johns Majors. Fjármálaráðherra, Philip Hammond, hafði einnig gefið í skyn að hann myndi greiða atkvæði gegn stjórninni.
Breska stjórnin stóð við stóru orðin og voru þingmennirnir 21 reknir úr þingflokkinum.
Fréttin hefur verið uppfærð.