Hvað bíður Johnsons í þinginu?

Atkvæðagreiðslu í breska þinginu í dag er beðið með mikilli eftirvæntingu en þar verða greidd atkvæði um tillögu um að koma í veg fyrir að Bretar gangi samningslausir út úr Evrópusambandinu.

Í gærkvöldi var forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, niðurlægður af eigin flokksmönnum þegar yfir 20 þeirra greiddu atkvæði gegn honum. Þeir voru allir reknir úr flokknum að lokinni atkvæðagreiðslu í gærkvöldi.

Neðri deild þingsins í Bretlandi samþykkti í gærkvöldi tillögu um að gera þinginu kleift að afgreiða lagafrumvarp sem kveður á um að Boris Johnson forsætisráðherra beri að óska eftir því að útgöngu landsins úr Evrópusambandinu verði frestað um þrjá mánuði ef ekki næst nýtt samkomulag um hana við leiðtoga ESB-ríkja. 21 þingmaður Íhaldsflokksins greiddi atkvæði með tillögunni.

Embættismenn stjórnar Johnsons höfðu sagt að biði hún ósigur í atkvæðagreiðslunni hygðist hún beita sér fyrir því að þingkosningar færu fram 14. október. Johnson staðfesti eftir atkvæðagreiðsluna að hann hygðist leggja til að kosningum yrði flýtt ef neðri deild þingsins samþykkir frumvarpið í dag eins og stuðningsmenn þess stefna að.

Í dag mun fjármálaráðherra Bretlands, Sajid Javid, kynna nýtt frumvarp sem er ætlað að draga úr áhrifum Brexit. Meðal annars er um að ræða uppbyggingu innviða hafna en alls hljóðar frumvarpið upp á tveggja milljarða punda fjármögnun í ýmis verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert