Boðar til nýrra kosninga um þingrof

Boris Johnson og Mike Pence utan við Downingstræti í morgun.
Boris Johnson og Mike Pence utan við Downingstræti í morgun. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hefur boðað til nýrrar atkvæðagreiðslu í breska þinginu á mánudag, þar sem greidd verða atkvæði um hvort rjúfa á þing og boða til nýrra kosninga.

Johnson boðaði til samskonar atkvæðagreiðslu í þinginu í gær, eftir að hafa tapað í atkvæðagreiðslu um áætlun sína um útgöngu úr Evrópusambandinu fyrr um daginn. Ekki náðist þó samstaða um það í þinginu að boða til kosninga, en til þess þurfa 2/3 hlutar þingmanna að greiða atkvæði.

298 þingmenn greiddu tillögunni atkvæði sitt, þar á meðal allir þingmenn íhaldsmanna nema tveir, auk allra tíu þingmanna norðurírska sambandsflokksins. Bróðurpartur þingmanna stjórnarandstöðunnar kaus hins vegar að sitja hjá, sem hefur í raun sömu þýðingu og að greiða atkvæði gegn frumvarpi í þessu tilfelli. Skaut Boris Johnson föstum skotum að Jeremy Corbyn af því tilefni og sagði að hann væri „fyrsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í sögu lýðræðis í landinu okkar sem hafnar boði um þingkosningar“.

Þrátt fyrir annríki heimafyrir gaf Boris Johnson sér tíma til að funda bæði með Mike Pence Íslandsvini og Benjamin Netanjahu, forsætisráðherra Ísraels, í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert