Mögulegur samningur um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu er í sjónmáli. Þetta hefur breska dagblaðið Daily Telegraph eftir Stephen Barclay, ráðherra útgöngumála í ríkisstjórn landsins. Mikil vinna sé þó enn óunnin.
Ráðherrann segir að umfangsmiklar viðræður hafi átt sér stað, bæði varðandi tæknileg og pólitísk úrlausnarefni og að mikill árangur hafi þegar náðst á bak við tjöldin. „Við sjáum lendingarpall framundan varðandi framtíðarsamning en enn er mikið verk óunnið. Viðræðurnar á morgun skipta miklu máli fyrir framhaldið.“
Vísaði Barclay þar til fyrirhugaðs fundar Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, með Jean-Claude Juncker, fráfarandi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem fram fer á morgun í Lúxemborg. Johnson sagði nýverið að hann væri hóflega bjartsýnn vegna fundarins á morgun og að útlínur samningsins væru að verða til.
Sjálfur mun Barclay funda á morgun með Michel Barnier, aðalsamningamanni Evrópusambandsins, vegna útgöngu Bretlands úr sambandinu. Barclay sagði við sjónvarpsstöðina Sky að skilaboð breskra stjórnvalda væru skýr, þau vildu semja um fyrsta flokks fríverslunarsamning við ráðamenn í Brussel.
Lykilatriði frá sjónarhóli breskra stjórnvalda væri, að sögn Barclays, að Evrópusambandið félli frá þeirri kröfu sinni að Bretland yrði áfram í tollabandalagi sambandsins ef ekki tækist að finna lausn sem tryggði greiðar samgöngur á milli Írlands og Norður-Írlands. Leiðtogar Evrópusambandsins hafi sagt að þeir væru opnir fyrir nýjum leiðum í þeim efnum.
Bresk stjórnvöld hefðu sett fram með mjög skýrum hætti hvað það væri sem þau þyrftu að ná fram til þess að mögulegur útgöngusamningur yrði samþykktur af breska þinginu. Viðræðurnar við Evrópusambandið hafi einkum snúist um það.