Óttast Brexit-klósettpappírskort

Þingmaður á breska þinginu óttast klósettpappírskort verði af samningslausri útgöngu …
Þingmaður á breska þinginu óttast klósettpappírskort verði af samningslausri útgöngu Breta úr ESB.

Velski þingmaðurinn Jonathan Edwards viðraði í dag áhyggjur sínar á breska þinginu af því að ríkisstjórninni yrði um megn að tryggja innfluttar nauðsynjar á borð við klósettpappír, gangi Bretland úr Evrópusambandinu án samnings. Hann biðlaði til ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að birgðir af salernispappír yrðu nægar.

Fari sem horfir mun Bretland ganga úr ESB 31. október án samnings.

Simon Hart, ráðherra í bresku ríkisstjórninni, svaraði fyrirspurn Edwards. „Ríkisstjórnin myndi kjósa að fara úr ESB með samning í hönd. Sé það ekki mögulegt verðum við að fara út án samnings,“ sagði Hart.

Hann bætti því við að hugsanlega þyrfti ríkisstjórnin að sjá til þess að skipuleggja innflutning á ýmsum varningi.

Edwards gaf lítið fyrir þetta svar. „Breska ríkisstjórnin hefur þegar sagst vera viljug til að sturta bresku efnahagslífi niður um klósettið. En núna erum við ekki einu sinni með klósettpappír til að hreinsa upp eftir það. Vissulega býður þetta upp á ýmiss konar klósettbrandara, en þetta sýnir þann skaða sem samningslaus útganga gæti valdið; okkur gæti farið að skorta nauðsynjar,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert