Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ítrekaði í dag að ESB hefði gert allt sem það gæti gert til að tryggja að útganga Bretlands úr sambandinu yrði eins snyrtileg og mögulegt væri. ESB muni bíða eftir samþykki breska þingsins á útgöngusamningnum áður en hann yrði staðfestur.
Juncker sagði að þrátt fyrir að hann væri sorgmæddur yfir því að Bretar áætluðu að yfirgefa ESB 31. október gætu starfsmenn ESB sagt að þeir hefðu gert allt til að útgangan yrði sem snyrtilegust.
„Núna þurfum við að fylgjast með því sem fer fram á breska þinginu,“ sagði Juncker þegar hann ræddi við fjölmiðlafólk í Strasbourg.
Breska þingið kom saman á laugardaginn og þá var búist við því að atkvæði yrðu greidd um útgöngusamninginn. Hins vegar var fyrst samþykkt önnur tillaga, sem fól í sér að ekki yrðu greidd atkvæði um útgöngusamninginn fyrr en öll lagasetning sem væri nauðsynlegur grundvöllur samningsins hefði verið samþykkt.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, vonast til þess að lagasetningin verði samþykkt á þingi í dag.