Bretar fái aðeins tveggja vikna frest

Emmanuel Macron, forseti Frakklands.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. AFP

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, vill að Evrópusambandið veiti breskum stjórnvöldum ekki lengri frest en 15 daga til þess að ganga frá útgöngu Bretlands úr sambandinu.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að aðrir forystumenn innan Evrópusambandsins vilji hins vegar að fresturinn verði lengri. Embættismenn í Brussel óttist að stuttur frestur gæti leitt til þess að Bretar færu fyrir slysni út án samnings.

Stuttur frestur væri góðar fréttir fyrir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir í fréttinni en hann vinnur að því að reyna að fá breska þingið til þess að ganga frá samþykkt útgöngusamnings hans við Evrópusambandið og lagasetningu tengdri honum.

Haft er eftir Amélie de Montchalin, Evrópumálaráðherra Frakklands, að frönsk stjórnvöld útiloki langan frest sem hugsaður væri til þess að vinna tíma og endursemja um útgöngusamninginn. Láta eigi reyna á tæknilegan frest í nokkra daga.

Búist er við að ákveðið verði á vettvangi Evrópusambandsins í fyrsta lagi á föstudaginn hvort og þá hversu langur frestur Bretum verði veittur.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert