Fullveldið mikilvægara en tollalaus viðskipti

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, mun koma þeim skilaboðum á framfæri við Evrópusambandið í ræðu sem búist er við hann flytji á mánudaginn að hann sé reiðubúinn að sætta sig við tollaeftirlit á landamærum landsins að sambandinu frekar en að samþykkja að taka áfram við regluverki frá Brussel.

Þetta kemur fram í frétt Daily Telegraph, en Bretland mun ganga formlega úr Evrópusambandinu annað kvöld klukkan 23:00 að íslenskum tíma en þar hefur landið verið allt frá árinu 1973 eða í tæplega hálfa öld. Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016 að yfirgefa Evrópusambandið.

Hafnar fyrirkomulagi hliðstæðu við EES

Verkefnið fram undan er að freista þess að semja um fríverslunarsamning á milli Bretlands og Evrópusambandsins. Bretar verða áfram innan innri markaðar sambandsins og tollabandalags þess á meðan það verður reynt, sem kallað hefur verið aðlögunartímabil, en gert er ráð fyrir að því fyrirkomulagi ljúki um næstu áramót.

Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins.
Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins. AFP

Evrópusambandið telur að lengri tíma þurfi til þess að landa samningi og hafa hvatt Johnson til þess að óska eftir framlengingu aðlögunartímabilsins en hann hefur þvertekið fyrir það. Samið verði um viðskipti fyrir næstu áramót eða ekki. Þannig gæti komið til þess að Bretar yfirgefi innri markaðinn og tollabandalagið án slíks samnings.

Forystumenn Evrópusambandsins hafa ítrekað lýst því yfir Bretar verði að samþykkja að fylgja áfram ýmsum reglum sambandsins í skiptum fyrir tollalausan viðskiptasamning. Það er að segja hliðstætt fyrirkomulag í grunninn við EES-samninginn sem Ísland er aðili að við Evrópusambandið. Johnson hefur hins vegar, sem fyrr segir, algerlega hafnað því.

Mun aldrei beygja sig fyrir kröfum ESB

Heimildir breska dagblaðsins úr forsætisráðuneytinu breska herma að þó að Johnson vilji gjarnan forðast tolla og tollkvóta á viðskipti yfir Ermarsundið muni hann aldrei beygja sig fyrir kröfum um aðlögun að regluverki Evrópusambandsins þrátt fyrir að honum sé fullkunnugt um þær afleiðingar sem það kunni að hafa í för með sér.

Dagblaðið segir að þetta feli í sér þau skilaboð frá Johnson til breskra fyrirtækja að þau kunni að standa frammi fyrir aukinni pappírsvinnu og eftirliti þegar vörur verða fluttar til Evrópusambandsins en það sé gjald sem hann sé reiðubúinn að greiða til þess að Bretar geti sett eigin reglur, haldið fullum yfirráðum yfir breskum fiskimiðum og bundið enda á áhrif dómara við dómstól sambandsins á bresk innanlandsmál.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka