Endurbirta skopteikningar af Múhameð

Ég er Charlie.
Ég er Charlie. AFP

Franska ádeilu­ritið Charlie Hebdo ætlar að endurbirta skopteikningar af Múhameð spámanni í vikunni á sama tíma og réttarhöld hefjast yfir samverkamönnum þeirra sem gerðu árás á ritstjórnarskrifstofur ritsins í janúar 2015.

„Við munum aldrei gefast upp,“ skrifar ritstjóri Charlie Hebdo, Laurent „Riss“ Sourisseau, í ritstjórnargrein sem fylgir endurbirtingu skopmyndanna í nýjasta hefti vikuritsins.

Tólf, þar á meðal þekktustu skopmyndateiknarar Frakklands, voru drepnir í hryðjuverkaárásinni á skrifstofu Charlie Hebdo 7. janúar 2015.

Árásarmennirnir voru tveir, bræðurnir Said og Cherif Kouachi. Þeir voru drepnir af lögreglu í kjölfar árásarinnar en réttarhöld hefjast yfir 14 samverkamönnum þeirra í París á morgun. Þeirra á meðal þeir sem tengdust árás í matvörubúð gyðinga á sama tíma.

Teikningarnar sem um ræðir voru fyrst birtar í danska dagblaðinu Jyllands Posten árið 2005 og endurbirtar í Charlie Hebdo árið 2006. Myndirnar vöktu mikla reiði meðal múslíma víða um heim. 

Í miðju opnunnar þar sem teikningar eru birtar er mynd af Jean Cabut, teiknara sem þekktur var undir nafninu Cabu, en hann lést í hryðjuverkaárásinni. „Allt þetta fyrir aðeins þetta,“ segir í fyrirsögn á forsíðu Charlie Hebdo í dag.

Í minningu ritstjórnar Charlie Hebdo, teikning efitr Christian Guemy, þekktur …
Í minningu ritstjórnar Charlie Hebdo, teikning efitr Christian Guemy, þekktur sem C215. AFP

Í ritstjórnargreininni segir að nú sé rétti tíminn til að endurbirta teikningarnar, á sama tíma og réttarhöldin hefjast. „Við höfum oft verið beðin að prenta aðrar skopmyndir af Múhameð frá því í janúar 2015,“ segir í ritstjórnargreininni. „Við höfum alltaf neitað því. Ekki af því að það sé bannað – lögin heimila okkar það – heldur vegna þess að það yrði að vera góð ástæða til þess. Ástæða sem hefði merkingu og myndi bæta einhverju við umræðuna.“

Skiptar skoðanir hafa oft verið um birtingarstefnu Charlie Hebdo, hvort hún sé í anda tjáningarfrelsis eða hvort gengið sé of langt. En þegar fjöldamorðin voru framin sameinaðist franska þjóðin undir myllumerkinu #JeSuisCharlie.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka