13 ár fyrir að panta barnaníð

Hús Héraðsdóms Aust-Agder í Arendal þar sem 32 ára gamall …
Hús Héraðsdóms Aust-Agder í Arendal þar sem 32 ára gamall Norðmaður hlaut í síðustu viku 13 ára dóm fyrir að panta og greiða fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum sem framið var á Filippseyjum og honum sent myndefni. Dómurinn er sá fyrsti sem fellur í Agder vegna barnaníðsmáls þar sem ákærði framkvæmir ofbeldið ekki sjálfur en fær sent myndefni af því. Norska lögreglan hefur rannsakað fjölda barnaníðsmála síðustu ár og teygja mörg þeirra anga sína til Filippseyja. Ljósmynd/Wikipedia.org/Carsten R.D.

Rúmlega þrítugur Norðmaður hlaut í síðustu viku 13 ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Aust-Agder í Arendal í Suður-Noregi fyrir barnaníð með því að hafa pantað kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum á aldrinum sex til 14 ára á Filippseyjum þar sem brotin voru framin og myndefni af þeim svo sent manninum í tölvu hans þar sem lögregla fann yfir eitt þúsund myndir og myndskeið.

Lögreglan í Agder skrifar um dóminn á síðu sinni og tekur sérstaklega fram að þetta sé fyrsti dómurinn sem fellur þar í fylkinu fyrir barnaníð sem fram fer með þeim hætti að dæmdi leggur fram pantanir um brot og fær myndefnið sent til sín.

Ein af mörgum lögregluaðgerðum

„Málið gegn ákærða hófst þegar nafn hans kom upp í tengslum við rannsókn á öðrum aðila í Mæri og Raumsdal [...] Ákærði hafði þá þegar stöðu grunaðs. Málið var sent lögreglunni í Agder daginn eftir,“ er meðal þess sem lögreglan skrifar um málið.

Mál mannsins féll undir eina af mörgum aðgerðum norsku lögreglunnar gegn barnaníði á lýðnetinu, að þessu sinni „Operasjon Pandora“ á vegum lögreglunnar í Agder, en mbl.is hefur áður fjallað um aðgerðirnar „Infinity“ og „Dark Room“, báðar mjög umfangsmiklar. Í Dark Room-aðgerðinni lagði lögregla hald á 150 terabæti af efni sem sýndi börn á kynferðislegan hátt auk kynferðislegs ofbeldis gegn þeim.

Í dómnum, sem nú var að falla, var sérstaklega tekið fram, að um mjög alvarleg brot væri að ræða þar sem refsiramminn væri 21 ár. Sýnt var fram á að dæmdi hefði lagt fram pantanir um 14 brot sem aldrei voru framkvæmd og töldust því ekki fullframin þótt maðurinn hefði hvort tveggja lýst því hvernig brotin skyldu framin auk þess að hafa reitt fram greiðslur fyrir þau.

Um 20 manns vítt og breitt um Noreg sæta nú rannsókn sem tengist þessu máli, meðal annars vegna samskipta á spjallsíðu barnaníðinga sem lögregla fylgdist með, en sá sem nú hlaut dóm mun hafa verið tíður gestur þar og tekið þátt í umræðum um barnaníð. Myndefni var auk þess dreift á síðunni.

Fjöldi mála tengist Filippseyjum

Norska lögreglan hefur undanfarin ár rannsakað fjölda barnaníðsmála sem teygja anga sína til Filippseyja, gjarnan með þeim hætti að Norðmenn panta myndefni af kynferðisofbeldi gegn börnum sem framið er á Filippseyjum. Greindi mbl.is frá því í fyrrasumar þegar lögregla í Taguig City á Filippseyjum réðst til inngöngu í húsnæði og bjargaði þaðan fimm ára gamalli stúlku í kjölfar rannsóknar norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos á umsvifum manns í Troms sem hafði verið í samstarfi við hring barnaníðinga á Filippseyjum.

Í niðurstöðu dómsins í Agder í síðustu viku segir að þótt ákærði hafi ekki sjálfur framkvæmt þau brot sem ákært var fyrir hafi hann talist aðalmaður í brotunum, pantað þau og greitt fyrir. Refsing hans sé því hæfilega ákveðin 13 ára fangelsi. Maðurinn hefur, að sögn ákæruvaldsins, óskað eftir fresti til að ákveða hvort hann hyggist áfrýja málinu.

NRK

NRKII

TV2

Umfjöllun lögreglu í Agder

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert