Umdeilt Brexit-frumvarp samþykkt

Viðræður um viðskiptasamninga milli Bretlands og ESB standa nú yfir.
Viðræður um viðskiptasamninga milli Bretlands og ESB standa nú yfir. AFP

Neðri deild breska þingsins samþykkti frumvarp í gærkvöldi, sem felur í sér að ekki verður tekið tillit til ákveðinna hluta Brexit-samnings Breta við Evrópusambandið.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að frumvarpið innihaldi öryggisnet sem verndi Norður-Írland, sem og allt Bretland, í komandi samningaviðræðum við ESB.

Johnson segir að frumvarpið komi í veg fyrir að ESB setji tolla á innanlandsviðskipti í Bretlandi, þar á meðal matarsendingar til Norður-Írlands.

Andstæðingar frumvarpsins, þar á meðal meðlimir Íhaldsflokks Johnsons og fimm forverar hans á Downing-stræti, vara við því að hið téða neyðarúrræði brjóti mögulega í bága við alþjóðleg lög, og skaði orðspor Bretlands á alþjóðavettvangi.

Fulltrúar ESB hafa einnig gagnrýnt frumvarpið og kallað réttlætingar Johnsons útúrsnúninga. Leiðtogar sambandsins hafa heimtað að úrræðið verði dregið til baka fyrir lok septembermánaðar.

Möguleg andstaða í lávarðadeildinni

Nú standa yfir samningaviðræður milli Bretlands og Evrópusambandsins um fyrirkomulag viðskiptasamninga eftir útgöngu Breta úr ESB. Bretar gengu formlega úr sambandinu í janúar síðastliðinn, en hið svokallaða aðlögunartímabil endar í janúar 2021.

Frumvarpið var samþykkt af fulltrúadeild breska þingsins í gærkvöldi.
Frumvarpið var samþykkt af fulltrúadeild breska þingsins í gærkvöldi. AFP

Hætta er á að frumvarpið muni valda frekari erfileikum í viðræðunum, sem eru sagðar síðasti liðurinn í útgönguferlinu.

Áður en frumvarpið er leitt í lög þarf það að fara í gegn um lávarðadeild breska þingsins. Reiknað er með að frumvarpið mæti mikilli mótstöðu í lávarðadeildinni, en ef það er samþykkt tekur það gildi í janúar 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert