Neðri deild breska þingsins samþykkti frumvarp í gærkvöldi, sem felur í sér að ekki verður tekið tillit til ákveðinna hluta Brexit-samnings Breta við Evrópusambandið.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að frumvarpið innihaldi öryggisnet sem verndi Norður-Írland, sem og allt Bretland, í komandi samningaviðræðum við ESB.
Johnson segir að frumvarpið komi í veg fyrir að ESB setji tolla á innanlandsviðskipti í Bretlandi, þar á meðal matarsendingar til Norður-Írlands.
Andstæðingar frumvarpsins, þar á meðal meðlimir Íhaldsflokks Johnsons og fimm forverar hans á Downing-stræti, vara við því að hið téða neyðarúrræði brjóti mögulega í bága við alþjóðleg lög, og skaði orðspor Bretlands á alþjóðavettvangi.
Fulltrúar ESB hafa einnig gagnrýnt frumvarpið og kallað réttlætingar Johnsons útúrsnúninga. Leiðtogar sambandsins hafa heimtað að úrræðið verði dregið til baka fyrir lok septembermánaðar.
Nú standa yfir samningaviðræður milli Bretlands og Evrópusambandsins um fyrirkomulag viðskiptasamninga eftir útgöngu Breta úr ESB. Bretar gengu formlega úr sambandinu í janúar síðastliðinn, en hið svokallaða aðlögunartímabil endar í janúar 2021.
Hætta er á að frumvarpið muni valda frekari erfileikum í viðræðunum, sem eru sagðar síðasti liðurinn í útgönguferlinu.
Áður en frumvarpið er leitt í lög þarf það að fara í gegn um lávarðadeild breska þingsins. Reiknað er með að frumvarpið mæti mikilli mótstöðu í lávarðadeildinni, en ef það er samþykkt tekur það gildi í janúar 2021.