Upplýstu stjórnvöld í Bandaríkjunum

Frá heimsókn Bidens til Ísraels í október á síðasta ári.
Frá heimsókn Bidens til Ísraels í október á síðasta ári. AFP/Brendan Smialowski

Fjölmiðlar vestanhafs segja stjórnvöld í Ísrael hafa upplýst bandarísk stjórnvöld um fyrirætlanir sínar áður en Ísrael lét til skarar skríða. Bandaríkjamenn hefðu þó hvorki stutt aðgerðina né tekið þátt í henni.

Snemma í morgun greindi íranska fréttastofan Fars News frá því að þrjár sprengingar hefðu heyrst í grennd við Shekari-herbækistöðina í norðvesturhluta Isfahan-héraðsins.

Talsmaður geimvísindastofnunar Írans, Hossein Dalirian, sagði að nokkrir drónar hefðu verið skotnir niður en að flugskeytum hefði ekki verið skotið „í bili“.

Þá greindu íranskir miðlar jafnframt frá því að loftvarnakerfi í nokkrum borgum hefðu verið virkjuð.

Þvertaka fyrir árás

Ísraelsher hefur ekki viljað tjá sig um árásina en bandarískir embættismenn hafa staðfest við miðla vestanhafs að ísraelskt flugskeyti hafi hæft Íran. Ekki er þó vitað um umfang tjónsins eða hvert skotmarkið var. Ísraelskur embættismaður hefur einnig staðfest að Ísrael hafi gert loftárás á Íran.

Síðar í morgun þvertók íranska fréttastofan Tasnim fyrir að Íran hefði orðið fyrir utanaðkomandi árás.

Við svipaðan tón kvað hjá íranska ríkisfréttamiðlinum IRIB sem sagði  allt vera „með kyrrum kjörum“ í Isfahan.

Flugferðum aflýst

Flugferðum til borganna Tehran, Isfahan og Shiraz var aflýst og lá starfsemi niðri á nokkrum flugvöllum, samkvæmt Mehr-fréttastofunni.

Flugvél á vegum Emirati-flugfélagsins hafði þegar tekið á loft og stefndi til Tehran þegar henni var snúið við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert