Leigumorðingjar gítarkennara sendir á eftir sjúkraþjálfara

Franskir lögreglumenn að störfum.
Franskir lögreglumenn að störfum. AFP/Miguel Medina

Réttarhöld hefjast í Frakklandi í dag í máli gítarkennara sem er sakaður um að hafa ráðið hóp leigumorðingja frá Georgíu til að myrða sjúkraþjálfarann sinn.

Tónlistarmaðurinn hafði sakað sjúkraþjálfarann, sem starfar í París, um að hafa valdið honum langvarandi sársauka í hálsinum, en hefur neitað því að hafa nokkru sinni reynt að drepa hann.

Sjúkraþjálfarinn var á leiðinni yfir götuna á leið til vinnu árið 2019 þegar bíll jók hraðann, keyrði á hann og ók síðan á brott.

Maðurinn slasaðist á fótlegg en slapp annars með skrekkinn. Hann sagði rannsakendum að hann grunaði fyrrverandi sjúkling sinn um verknaðinn.

París.
París. AFP/Joel Saget

Samtök sjúkraþjálfara dæmdu sjúkraþjálfarann til að greiða fyrrverandi sjúklingi sínum 30 þúsund evrur í skaðabætur, eða um 4,6 milljónir króna.

En í ljós kom eftir hleranir lögreglu að sjúklingurinn var þrátt fyrir það sagður í hefndarhug.

Í ljós kom að kona mannsins og faðir hennar, bæði frá Georgíu, höfðu reynt að ráða hóp leigumorðingja frá heimalandi sínu til að ganga frá sjúkraþjálfaranum. Morðingjunum voru greiddar tvö þúsund evrur árið 2018 en ekki tókst að ljúka verkefninu.

Konan er síðar sögð hafa ráðið nýjan hóp, þar á meðal þrjá menn sem flugu til Frakklands frá Georgíu, til að reyna að aka yfir sjúkraþjálfarann, og síðan hafi þeir yfirgefið landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka