Líkaminn bruggar eigið áfengi

Maðurinn hefur ítrekað verið stöðvaður af lögreglunni fyrir að keyra …
Maðurinn hefur ítrekað verið stöðvaður af lögreglunni fyrir að keyra „undir áhrifum“. Ljósmynd/Colourbox

Dómstóll í Belgíu hefur vísað frá kæru á hendur fertugum Belga sem var sakaður um að hafa keyrt undir áhrifum. Frávísunin er byggð á því að maðurinn glímir við einkar sjaldgæfan sjúkdóm, en líkami hans bruggar eigið áfengi. 

Maðurinn þjáist af svokölluðu „auto-brewery syndrome“ eða ABS. Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að kolvetni gerjast í maga mannsins, sem magnar upp etanól í blóðrásinni og leiðir til einkenna ölvunar. 

Fjöldi tilfella líklega vanmetinn

Lögmaður mannsins, Anse Ghesquire, segir í samtali við fréttastofu AFP að fjöldi tilfella ABS sé að öllum líkindum vanmetinn. Eins og er hafa einungis tuttugu manns hafa verið greindir með sjúkdóminn.

Ghesquire segir skjólstæðing sinn hafa fært fram sönnur á sjálfsbruggunarheilkennið eftir rannsóknir þriggja mismunandi lækna. 

Vissi ekki að hann glímdi við sjúkdóminn 

Árið 2022 var maðurinn stöðvaður af lögreglunni og látinn blása. Hann mældist með 0,91 milligrömm af áfengismagni á hvern lítra. Hann var aftur stöðvaður mánuði síðar og mældist með 0,71 milligrömm. 

Leyfilegt áfengismagn í Belgíu undir stýri er 0,22 milligrömm á hvern lítra sem andað er út frá sér, en það samsvarar um 0,5 grömmum af áfengismagni í blóðrásinni. 

Árið 2019 var maðurinn sektaður fyrir að keyra undir áhrifum þrátt fyrir mótmæli. Sagðist hann ekki hafa fengið sér sopa af áfengi. Að sögn lögmannsins vissi maðurinn ekki að hann glímdi við sjúkdóminn fyrr en hann var síðast stöðvaður af lögreglu árið 2022. 

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að lögin geri ekki ráð fyrir aðstæðum mannsins og því var málinu vísað frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka