76 milljarðar í enduruppbyggingu í Dúbaí

Yfirgefnar bifreiðar í Dúbaí.
Yfirgefnar bifreiðar í Dúbaí. AFP/Giuseppe Cacace

Gríðarleg úrkoma gekk yfir Sameinuðu arabísku furstadæmin og nágrannaríki þess um miðjan mánuð. Úrkoman olli víðtækum flóðum í höfuðborginni Dúbaí og voru margir vegir í kringum borgina ófærir svo dögum skipti.

Stjórnvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum tilkynntu í gær að þau myndu leggja til 544 milljónir dala, eða rúmlega 76 milljarða íslenskra króna, til að gera við skemmdirnar sem flóðin ullu.

Tankbílar flytja vatn

„Við lærðum mikilvægar lexíur í því að takast á við mikla rigningu,“ sagði Sheikh Mohammed bin Rashid al-Maktoum forsætisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag og bætti við að ráðherrarnir hefðu samþykkt styrk upp á „tvo milljarða dirhams til að takast á við skemmdir á heimilum íbúa“.

Illa hefur gengið að koma regn­vatni frá þar sem frá­rennslis­kerfi borgarinnar ræður illa við vatnsflauminn. Þetta hefur hindrað björgunarstarf að miklu leyti og hafa ófærir vegir haft áhrif á grunnþjónustu í borginni í marga daga. 

Í skipulagi borgarinnar hefur víða ekki verið gert ráð fyr­ir frárennsliskerfi. Til að bregðast við stöðunni hafa tankbílar dælt upp vatninu, ekið því út fyrir borgarmörkin og losað.

Tankbílar hafa verið notaðir til að dæla upp vatni á …
Tankbílar hafa verið notaðir til að dæla upp vatni á götum borgarinnar. AFP/Giuseppe Cacace
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka