Dómsmálaráðherra: Hefðbundin já,já/nei,nei afstaða framsóknarmanna

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra.
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra. mbl.is/Frikki

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á vef sínum í dag að þegar ályktun Framsóknarflokksins um aðildarviðræður við Evrópusambandið er lesin þá sést að þetta er ósköp hefðbundin já,já/nei,nei afstaða framsóknarmanna, enda hefði hún ella ekki hlotið jafnafgerandi stuðning flokksmanna.

Einkennilegt er, að þessi niðurstaða skuli gleðja aðildarsinnana Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar, og Eirík Bergmann Einarsson á Bifröst. Hitt er að vísu vitað, að litlu verður Vöggur feginn, skrifar Björn í dag.

Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins boðaði til kynningarfundar í Valhöll í hádeginu í dag. Mikill fjöldi fólks hlýddi á þá formenn nefndarinnar, Kristján Þór Júlíusson, alþingismann, og Árna Sigfússon, bæjarstjóra, útlista það, sem fram hefur komið í nefndarstarfinu.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti ræðu á fundinum. Hann taldi starf Evrópunefndar hafa gengið afar vel og til marks um það væri, að um 1500 manns hefðu sótt fundi á hennar vegum um land allt. Tekist hefði að blása lífi í Evrópuumræður innan Sjálfstæðisflokksins, þótt aðild að Evrópusambandinu væri ekki neitt skyndilegt bjargráð út úr vanda þjóðarinnar. Ekki væri unnt að reikna sig inn í sambandið og nota til þess peningalegan mælikvarða, huglægt mat yrði einnig að ráða. Hafa yrði að leiðarljósi, hvað Íslandi yrði fyrir bestu.

Vefur Björns Bjarnasonar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær