Fagnað í Skopje

Frá Makedóníu
Frá Makedóníu Reuters

Þúsundir íbúa höfuðborgar Makedóníu, Skopje, þustu út á götur í dag til þess að fagna nýrri skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem mælt er með því að hefja viðræður við Makedóníu um aðild að ESB. Tæp fjögur ár eru liðin frá því ríkið sótti um aðild að ESB.

Veifaði fólkið þjóðfána landsins og fána ESB og ökumenn þeytu bílflautur sínar í miðborginni.

Forsætisráðherra Makedóníu, Nikola Gruevski, fagnaði tilmælum framkvæmdastjórnarinnar og sagði að þetta væri sögulegur dagur fyrir íbúa Makedóníu.

„Við vitum hve mikilvæg þessi skýrsla er og Makedónía mun taka á virkan og uppbyggilegan hátt í viðræðunum og reyna að ná samkomulagi við Grikki á vegum Sameinuðu þjóðanna," sagði Gruevski á fréttamannafundi í Skopje.

Grikkir hafa barist gegn því að nafnið lýðveldið Makedónía hljóti náð fyrir augum umheimsins þar sem þeir telja að nafnið sé hluti af grískri arfleið. Hérað í norðurhluta Grikklands ber nafnið Makedónía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert