Umsóknin á dagskrá á mánudag

Össur Skarphéðinsson og Carl Bildt, utanríkisráðherrar.
Össur Skarphéðinsson og Carl Bildt, utanríkisráðherrar. Reuters

Stækkun Evrópusambandsins, og þar með aðildarumsókn Íslands, er á dagskrá fundar utanríkisráðherra aðildarríkjanna á mánudag. Össur Skarphéðinsson segir yfirgnæfandi meirihluta utanríkisráðherra aðildarríkja hafa tjáð sér með einum eða öðrum hætti stuðning við umsókn Íslands.

Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar sagði á blaðamannafundi í morgun, þegar Össur afhenti umsókn Íslands, að af og frá væri að tengja umsóknina við Icesave-málið.

Samkvæmt upplýsingum frá sænska utanríkisráðuneytinu verður umsókn Íslands á dagskrá fundar ráðherraráðs á mánudaginn, en óvíst er að hún verði rædd þar. Ákvörðun um framhald umsóknarinnar þarf að vera tekin á slíkum fundi.

Össur Skarphéðinsson sagði í samtali við mbl.is að vissulega hefði verið ákveðinn draugagangur í kringum málið, þar sem einstaka þjóðir hefðu sett sig upp á móti umsókn Íslands og vísaði þar til ummæla utanríkisráðherra Hollands. Hann sagðist þó ekkert vita um hvort eða hvernig umsókn Íslands yrði afgreidd á fundinum á mánudag.

„En það er ljóst að við höfum yfirgnæfandi stuðning meðal mjög margra. Svíar, sem nú eru í forsæti Evrópusambandsins hafa sett málið fram af miklum krafti,“  sagði Össur. Fundarstjórn á mánudag er í höndum Svía. „Það hefur svo verið sérlega ánægjulegt að finna hve afdráttarlausan stuðning við höfum frá Bretum, hjá þeim er engin viðleitni nema síður væri til að beita Icesave á móti umsókninni.“

Össur hefur á undanförnum dögum rætt við utanríkisráðherra 23 aðildarríkja ESB, til að reyna að tryggja að umsóknin verði tekin fyrir á fundinum. Þar kveðst hann hafa fundið mikinn stuðning og jafnframt segir hann að það muni ekki vekja lukku ef menn telja að annarleg sjónarmið liggi að baki mótstöðu við umsókn Íslands.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Loka