„Getum lifað án Evrópu“

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

„Ég býst við að Ísland gæti orðið aðili að Evrópusambandinu eftir þrjú ár,“ sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, í samtali við þýska fjölmiðilinn Deutche Welle í dag.

Össur segir í viðtalinu að ein ástæða fyrir því að Íslendingar hafi ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu sé sú að nú standi yfir endurskoðun á utanríkisstefnu og öryggismálum landsins. „Við stóðum alltaf í þeirri trú að Bandaríkjamenn myndu vernda okkur en þegar þeir fóru héðan árið 2006 þurftum við virkilega að leita að öðrum hópi þjóða til að tilheyra.“

Össur segir í viðtalinu að Íslendingar hafi ýmislegt fram að færa fyrir Evrópusambandið, ekki síst þekkingu sína á meðferð endurnýjanlegrar orku. „Hér á Íslandi erum við sérfræðingar í því að nýta jarðvarma sem ég tel að sé hugsanlega orka sem Evrópusambandið hefur vannýtt.“ Þá segir Össur að Ísland geti opnað leiðina að Norður-Atlantshafi og ekki megi gleyma að í framtíðinni verði Ísland eflaust farið að framleiða olíu.

Össur nefnir einnig þekkingu Íslendinga á því hvernig best er að varðveita og vernda fiskistofna. Hann segist jafnframt aldrei hafa reynt að hunsa þá staðreynd að fiskistofnarnir verði mesta hindrunin í viðræðum Íslendinga við yfirvöld í Brussel.

Aðspurður hversu sterka stöðu Íslendingar hafa í viðræðunum segir utanríkisráðherrann að hann telji óhætt að segja að staða Íslands sé góð. „Sumir telja kannski að staða okkar sé veik því við höfum lent illa í fjármálakreppunni. En jafnvel án aðildar að Evrópusambandinu myndum við koma okkur út úr kreppunni fljótlega. Strax árið 2011 munum við sjá hagvöxt aukast hér á landi. Þannig ég hef ekki miklar áhyggjur, við förum ekki í viðræðurnar með það fyrir augum að við munum ekki komast af án Evrópu. Það getum við.“ 

Viðtalið má finna hér.  

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær

Loka