Clinton: Afar ánægður með að koma til Íslands

Bill Clinton ræðir við íslenska blaðamenn utan við bandaríska sendiráðið.
Bill Clinton ræðir við íslenska blaðamenn utan við bandaríska sendiráðið. mbl.is/GSH

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, segist vera hér á ferð á leiðinni til Írlands þar sem hann ætlar að árita nýútkomna ævisögu sína. Honum hafi þótt upplagt að koma við og sækja Hillary, konu sína, sem kom til Keflavíkurflugvallar í morgun ásamt bandarískri þingnefnd.

„Ég ætla að skoða mig um og hitta forsetann, forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann. Ég er ánægur með að vera hér; þetta er afar fallegt land," sagði Clinton við fréttamenn utan við bandaríska sendiráðið við Laufásveg. Hann hélt síðan á Þingvöll og mun ganga niður eftir Almannagjá og skoða merkisstaði þar.

Clinton sagðist ekki vita um hvað viðræðurnar við íslensku ráðamennina myndu snúast og þeir myndu væntanlega ráða ferðinni. Væntanlega yrði rætt um málefni samtímans að hluta en einnig um þann tíma sem hann var í embætti forseta. „En ég læt þá ráða viðræðunum. Þannig er það þegar maður er ekki lengur í embætti, þá ræðir maður um það sem aðrir vilja ræða," sagði Clinton.

Forsetinn fyrrverandi var óformlega klæddur, í gallabuxum og peysu. Fréttamenn spurðu Clinton nokkuð um bandarísku forsetakosningarnar og þær deilur sem nú eru vegna auglýsinga þar sem dregið er í efa að John Kerry, frambjóðandi demókrata, hefði hreinan skjöld varðandi framgöngu sína í Víetnamstríðinu. Clinton sagði að það væri háttur hægrimanna í Bandaríkjunum að ráðast á frambjóðendur með rógsherferð.

„Þegar Bush forseti bauð sig fram gegn John McCain, öldungadeildarþingmanni, í forkosningum repúblikana árið 2000, fjármögnuðu sömu menn, sem fjármagna þessa árás, árás á John McCain, sem var stríðsfangi í mörg ár... Það var einnig lygaþvæla, en þannig haga þeir sér," sagði Clinton. „Ef þeir telja sig geta komist upp með það þá gera þeir það. En ég er ánægður með að Kerry hefur brugðist við og barist gegn þessu og komið staðreyndunum á framfæri. Ég held að nú skipti mestu máli að snúa sér að málefnunum og fjalla um það sem mun hafa áhrif á Bandaríkjamenn næstu fjögur ár en ekki það sem gerðist fyrir 35 árum."

Clinton sagði að bandarískur almenningur skipti sér lítið af því hvað stjórnmálamenn segðu hver um annan. „En fólk lætur það til sín taka, ef menn nota árásirnar sem afsökun fyrir því að tala ekki um framtíðina og þau málefni sem öllu skipta. Ég held að nú muni umræðan fara að snúast um mismunandi stefnu frambjóðenda," sagði Clinton.

Flokksþing repúblikana er framundan og sagðist Clinton búast við að þeir myndu ná yfirhöndinni tímabundið í skoðanakönnunum í kjölfarið. „En ég held að úrslit kosninganna muni ráðast af því hvað gerist í kappræðunum og öðrum átökum frambjóðendanna fram til 2. nóvember," sagði Bill Clinton.

Sigurður Líndal segir Bill Clinton sögu Þingvalla.
Sigurður Líndal segir Bill Clinton sögu Þingvalla. mbl.is/Arna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert