Hillary hrifin af verkefnum á sviði vetnis hér á landi

Hillary Clinton, öldungadeildarþingmaður og fyrrverandi forsetafrú, sem er stödd hér á landi, segist hrifin af því starfi sem Íslendingar hafa unnið í vetnismálum. Hún segir að landið hafi unnið að þróun vetnismála af alvöru og bendir á akstur vetnisstrætisvagna sem dæmi um slíkt.

Hillary, sem er í för með bandarískri þingnefnd, sagðist hafa átt frábæran fund um vetnismál í Bláa lóninu í hádeginu. Hún sagði ennfremur að Íslendingar og Bandaríkjamenn gætu gert margt í sameiningu og þjóðirnar lært hvor af annarri. Spurð sagðist hún vona að vetni yrði framtíðar orkugjafi í Bandaríkjunum. Hún vildi ekkert ræða um bandarísk stjórnmál en sagðist á hinn boginn vilja ræða um Ísland.

Þegar blaðamenn gerðu aðra tilraun til þess að fá hana til þess að tjá sig um möguleika John Kerry, frambjóðanda Demókrataflokksins í forsetakosningunum næsta vetur, sagðist hún ætla að takast á við slík mál í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert