Búast við 7-10 daga gosi í suðvesturhorni Grímsvatnaöskjunnar

Magnús Tumi Guðmundsson sýnir kort af gosstöðvunum að flugi loknu …
Magnús Tumi Guðmundsson sýnir kort af gosstöðvunum að flugi loknu og við hlið hans er Freysteinn Sigmundsson. mbl.is/Sverrir

Gosið í Grímsvötnum er í suðvesturhorni Grímsvatnaöskjunnar, um fjóra kílómetra beint vestur af Vestari Svíahnjúk, en ekki í henni norðanverðri eins og áður var talið. Var það niðurstaða af flugi vísindamanna yfir gosstöðvunum í morgun. Skyggni til jökulsins var þó slæmt og sagði Magnús Tumi Guðmundsson á blaðamannafundi eftir flugið að talsvert vantaði á að vísindamenn hefðu heildarmynd af því sem átt hefði sér stað á eldsstöðvunum.

Magnús Tumi sagði að gossprungan væri stutt, lægi frá austri til vesturs og væri um einn kílómetri á lengd. Hann sagði að á þessum slóðum hefði eldurinn þurft að bræða af sér um 150-200 metra þykka íshellu. Hefði það tekið hann um klukkustund að vinna sig upp í gegnum hana.

Að sögn Magnúsar Tuma gýs nú um tveimur kílómetrum vestar en fyrir 6 árum en þar gaus einnig 1934 og 1983. Hann sagði gosið mun öflugra nú en 1998, þó hefði dregið úr krafti gossins frá í gærkvöldi og nótt en er vísindamenn voru yfir gosstöðvunum var gosið stöðugt. Gosmökkurinn hefði verið í 8-9 km hæð en mest farið í 13 km í nótt sem væri mun meiri hæð en 1998.

Guðrún Larssen sagði að gjóskufallið frá gosinu væri töluvert meira nú en í gosinu árið 1998. Það næði þó enn sem komið væri ekki að norðurbrún Vatnajökuls. Ómögulegt væri að segja um frekari dreifingu þar sem goskrafturinn væri mun minni en í nótt.

Magnús Tumi sagði að gosið væri ekki inni í sjálfum Grímsvötnunum en hluti þess vatns sem bráðnað hefði í gosinu hefði runnið þangað. Ætla mætti að 50-100 milljónir rúmmetra vatns hefði orðið til við gosið. Hann sagði að þótt hluti þess færi inn í vötnin myndi það ekki hafa veruleg áhrif á flóðið í Skeiðará.

„Það verður þó að segjast að við höfum ekki fulla mynd af málinu, þurfum meira skyggni og sjá meira af stöðvunum til að átta okkur betur á þessu. Það getur vel verið að bráðnunar gæti á fleiri stöðum og mögulegt er að gosið hafi komið upp á fleiri stöðum en síðan dáið,“ sagði Magnús Tumi.

Býst við 7-10 daga gosi

Hann sagði að í fluginu hefði sést til sigketils norðan til í Grímsvatnaöskjunni sem væri óvenjulegt og gæti verið til marks um bráðnun á fleiri stöðum.

Freysteinn Sigmundsson, forstöðumaður Norræna eldfjallasetursins, sagði ekkert benda til annars en að um stutt gos yrði að ræða, viku til 10 daga, eins og hann komst að orði á blaðamannafundinum.

Freysteinn sagði að gosið í Grímsvötnum drægi ekki úr hættunni á Kötlugosi í Mýrdalsjökli. Nokkrir kippir urðu í Goðabungu er gosið í Vatnajökli var að byrja en ekkert samband væri þó milli gossins þar og hugsanlegra eldhræringa í Mýrdalsjökli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert