Gosið raskar flugi Flugfélags Íslands

Gosið sem nýhafið er í Grímsvötnum hefur áhrif á flug Flugfélags Íslands til austurhluta landsins. Þannig er ekki unnt að fljúga sem stendur til Egilsstaða, Þórhafnar og Vopnafjarðar.

Samkvæmt upplýsingum frá félaginu er ekki unnt að segja til um það á þessari stundu hvernig þessi mál munu þróast, þar sem ekki liggur fyrir hve víðtækur gosmökkurinn er og hvar hann liggur.

Farþegum félagsins til og frá Egilsstöðum í dag verður boðinn sá kostur að fljúga með félaginu til Akureyrar og þaðan mun félagið bjóða rútuferðir til og frá Egilsstöðum.

Gert er ráð fyrir að fyrsta vélin til Egilsstaða/Akureyrar muni fara frá Reykjavík klukkan 12 á hádegi. Farþegar eru hvattir til að fylgjast vel með textavarpi til að sjá tíma á þessu flugi. Gert er ráð fyrir því, að á meðan þetta ástand varir muni Flugfélagið bjóða þjónustu til Egilsstaða áfram í gegnum Akureyrarflugvöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert