Nánast lokað fyrir flugumferð milli Íslands og Norður-Noregs

Myndin er tekin við Hraunkot í Landbroti
Myndin er tekin við Hraunkot í Landbroti Sigurlaug Jónsdóttir

Flugsvæðið milli Íslands og Norður-Noregs er nánast lokað þar sem gosmökkurinn frá eldgosinu í Grímsvötnum leitar til norðausturs og engin flugvél fer í gegnum gosmökkinn, að sögn Bergþórs Bergþórssonar, aðalvarðstjóra í Flugumferðarstjórn á Reykjavíkurflugvelli. Hann segir ákvörðunina um að beina umferð frá byggja á upplýsingum frá Veðurstofu Íslands sem er með öskulíkan og þar til að meiri upplýsingar koma um ösku, hvort hún sé meiri eða minni, er þessu öskulíkani fylgt. Segir Bergþór að askan gæti verið komin á mjög stórt svæði ef um þokkalega stórt öskugos er að ræða.

Segir Bergþór að allri flugumferð sé beint frá þessu svæði. „Þar sem það þurfti að verða eldgos þá er það allavega á heppilegum tíma sólarhringsins og heppilegum degi. Þetta eru sunnan- og suðvestan vindar og gosmökkurinn fer til norðausturs. Því er þetta heppilegasta vindáttin fyrir flugumferð en við værum í mjög slæmum málum ef það væri norðanátt og gosmökkurinn færi til suðurs. Það er tiltölulega lítil umferð þarna á milli núna og áhrifin því lítil á flugumferð. En í morgun hefur allt að tíu flugvélum verið beint suður fyrir gosmökkinn. Þetta eru vélar sem eru að koma frá Kanada á leið til Norður-Evrópu,“ að sögn Bergþórs.

Hann segir að þeim hafi verið beint suður fyrir gosmökkinn.

Yfirdýralæknir hvetur búfjáreigendur til að fylgjast með fréttum af gosinu og veðurspám. Ráðlegt er að hýsa búfé, verði vart við öskufall vegna hættu á flúoreitrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert