Almannavarnir vara við ferðum í nágrenni gosstöðvanna

Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjórans hefur sent frá sér viðvörun til ferðamanna á Vatnajökli, um að ferðir í nágrenni við gosstöðvarnar í Grímsvötnum séu mjög hættulegar. Að sögn Almannavarnardeildar hafa fregnir borist af því að ferðalangar hafi lent í vandræðum með að komast ofan af jöklinum í gær.

Viðvörun Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjórans er svohljóðandi: „Ferðir í nágrenni við gosstöðvar eru ávallt mjög hættulegar!

Þegar líður á eldgos í Grímsvötnum verða þau hviðukennd, það þýðir að gosvirknin minnkar og eykst á víxl. Þessar breytingar geta orðið mjög snöggt og í hviðunum geta stór glóandi hraunstykki, allt að 100 kg að þyngd þeyst mörg hundruð metra frá eldstöðinni. Þá getur ösku einnig slegið niður allt í kringum eldstöðina. Hvoru tveggja er mjög hættulegt! Einnig er rétt að benda á að umhverfis gosstöðvarnar er sprungusvæði í jöklinum. Lendi ferðamenn í þéttu öskufalli er skynsamlegast að bíða í bílum þar til öskuhríð slotar. Hætta getur verið af eldingum við slíkar aðstæður, jafnvel marga kílómetra frá gígnum.

Ferðamönnum er bent á að hættusvæðið nær að minnsta kosti 2 kílómetra út frá eldstöðinni!
Hnit gígsins eru 64° 23.9’ N, 17° 23,5’ V.

Í eftirlitsflugi vísindamanna yfir jökulinn síðdegis þriðjudaginn 2. nóvember kom í ljós að nýr sigketill hefur myndast við austurenda Grímsfjalls. Sú leið í Grímsvötn er því mjög hættuleg vegna sprungusvæðis kringum ketilinn.

Fregnir hafa einnig borist af því að ferðalangar sem voru á jöklinum í gær hafi lent í vandræðum með að komast ofan af jöklinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert