Bændur fylgist vel með öskufalli

Yfirdýralæknir hvetur búfjáreigendur til að fylgjast með fréttum af gosinu í Grímsvötnum og veðurspám. Hann segir að þeir verði að vera viðbúnir því að hýsa dýrin, verði vart við öskufall, vegna hættu á flúoreitrun.

Ráðleggingunum er sérstaklega beint til bænda á Norðausturlandi, Austurlandi og Suðausturlandi enda er nú talið líklegast að aska falli til jarðar þar, að sögn Halldórs Runólfssonar yfirdýralæknis. Bændur annars staðar á landinu verði þó að hafa varann á sér enda geti askan farið miklu víðar.

Í þessu sambandi sé fín aska enn varasamari en hin grófari þar sem hún ber jafnan með sér meiri flúor. Bændur alls staðar á landinu verði því að vera því viðbúnir að þurfa að hýsa dýrin. Halldór hvetur bændur til að setja út hvítar skálar til að þeir geti fylgst með því hvort aska falli til jarðar á þeirra jörðum.

Algengt er að bændur eigi ekki hús fyrir öll hross sem þeir hafa á beit. Halldór segir mikilvægt að þar sem aska falli haldi bændur hrossunum í hólfum þar sem þau fá bæði hreint vatn og ómengað fóður en geti hvorki verið á beit né drukkið vatn úr pollum.

Nánari upplýsingar um áhrif eldgosa á búfé er að finna á vefsíðu yfirdýralæknis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert