KLM aflýsti flestum ferðanna vegna þoku en ekki gosösku

Boeing 737-400 þota KLM-flugfélagsins.
Boeing 737-400 þota KLM-flugfélagsins. mbl.is/KLM

Frank Houben, talsmaður KLM-flugfélagsins, segir að einungis átta flugferðir á Evrópuleiðum félagsins hafi verið felldar niður í gær vegna gosösku sem borist hafi inn yfir Evrópu frá eldstöðinni í Grímsvötnum í Vatnajökli. Aðrar ferðir hafi fallið niður vegna þoku í Amsterdam.

Bæði AFP-fréttastofan franska og breska fréttastofan Press Association sögðu að mörg hundruð flugfarþega hefðu orðið strandaglópar á Schiphol-flugvellinum í Amsterdam í gær eftir að tugum ferða hafi verið aflýst vegna gossins í Grímsvötnum.

Af ferðunum átta sem var aflýst vegna hættu á gosösku í farflugshæðum flugvéla voru nokkrar til Kænugarðs í Úkraínu og til Moskvu.

Að sögn Guðmundar Haraldssonar, varðstjóra í flugstjórnarmiðstöðinni á Reykjavíkurflugvelli, er flugumferð á Norður-Atlantshafinu komin í eðlilegt horf eftir gos. Flugbannsvæði hafi færst jafnt og þétt norður á bóginn en enn sem komið er er flugbann norðan 73 gráðu þar sem talið sé að þar sé enn aska frá í gær og fyrradag. Þar er hvort eð er sáralítil umferð, að sögn Guðmundar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert