Útfærsla kvótakerfis gagnrýnd

Útfærsla kvótakerfisins byggist ekki á sanngjörnum grunni segir SÞ.
Útfærsla kvótakerfisins byggist ekki á sanngjörnum grunni segir SÞ. mbl.is/Brynjar Gauti

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna segir í úrskurði um íslenska fiskveiðikerfið, að það sé lögmætt markmið íslenskra stjórnvalda að vernda fiskistofna með kvótakerfi í fiskveiðum. Hins vegar hygli íslenska kerfið þeim sem upphaflega fengu úthlutað varanlegum kvóta og það byggist ekki á sanngirni.

Nefndin segir, að öll kvótakerfi, sem notuð eru til að stjórna aðgangi að takmörkuðum auðlindum, veiti kvótahöfum að sumu leyti forréttindi á kostað annarra án þess að að slíkt þurfi að vera óréttlátt.

Í tilfelli íslenska kvótakerfisins sé kveðið á um það í 1. grein laga um stjórn fiskveiða, að fiskistofnar við Ísland séu sameign íslensku þjóðarinnar. Hins vegar hafi sú viðmiðun, sem notuð var til að úthluta veiðikvótum í upphafi, og kunni að hafa verið eðlileg og hlutlaus aðferð þá, orðið varanleg þegar lögin tóku gildi og breytt upprunalegum nýtingarrétti á almannaeign í einkaeign. Kvótar, sem upprunalegir handhafar nýti ekki lengur, gangi kaupum og sölum á markaðsverði, og á leigumarkaði, í stað þess að þeir renni á ný til ríkisins og sé úthlutað að nýju með réttlátum og sanngjörnum hætti.

Segir mannréttindanefndin, að íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á, að þessi útfærsla á kvótakerfinu uppfylli sanngirniskröfur.  Segir nefndin loks, að í þessu máli sé niðurstaðan sú að þau forréttindi, sem upprunalegir kvótahafar hafi notið, byggist ekki á sanngjörnum grunni.

Úrskurður mannréttindanefndar SÞ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert